FRÆÐSLA

Samstarf við nemendur

Sinfóníuhljómsveit Austurlands stefnir er í reglulegu samstarfi við tónlistarskóla á Austurlandi. Hún stefnir að því að gefa lengra komnum nemendum á hljómsveitarhljóðfæri tækifæri til að spila í sinfóníuhljómsveit og efla þannig færni þeirra í samspili og hljómsveitarvinnubrögðum. Einnig gefur hún framúrskarandi tónlistarnemendum á Austurlandi tækifæri til þess að koma fram sem einleikarar eða einsöngvarar með sveitinni. Hljómsveitin býður einnig upp á tónlistartengda fræðslu.

Langt komnir hljóðfæranemendur hafa tekið þátt í starfi hljómsveitarinnar frá upphafi og hafa notið þess að spila með og læra af sér reyndari tónlistarmönnum. Á Vorgáska tónleikum hljómsveitarinnar árið 2019 lék Kristófer Gauti Þórhallsson, framhaldsnemandi í fiðluleik við Tónlistarskólann á Egilsstöðum, einleik með hljómsveitinni. Það er hljómsveitinni sönn ánægja að veita þessum flinku nemendum tækifæri til þess að taka þátt í starfinu og láta ljós sitt skína. Maxímús Músíkús verkefni ársins 2019 var síðan frábært fræðsluverkefni fyrir börn, þar sem ungir áheyrendur fengu að kynnast sinfóníuhljómsveitinni á skemmtilegan og aðgengilegan hátt.