Sinfóníuhljómsveit Austurlands hélt La dolce vita tónleika sína þann 12. september í Tónlistarmiðstöðinni á Eskifirði, sem hafði verið frestað fjórvegis vegna COVID-19. Tónleikarnir voru vel sóttir og var einkar ánægjulegt að sjá hve mörg börn lögðu leið sína á tónleikana. Hljómsveitin flutti hinn sívinsæla forleik að Brúðkaupi Figarós eftir Mozart og Sinfóníu nr. 4 eftir Mendelssohn, þá ítölsku. Svanur Vilbergsson lék Concierto de Aranjuez eftir Rodrigo af einstakri leikni og næmni. Guðmundur Óli Gunnarsson stjórnaði hljómsveitinni með miklum glæsibrag og ekki var annað að sjá en að áheyrendur væru mjög ánægðir með útkomuna og við hlökkum mikið til næstu tónleika!

 

Hljómsveitin þakkar styrktaraðilum fyrir að gera okkur kleift að halda tónleikana, en hún hlaut styrk frá Tónlistarsjóði, Alcoa, Múlaþingi, Fjarðabyggð, Menningarsjóði FÍH og Síldarvinnslunni til þess að halda þessa tónleika. Einnig naut hún fjárhagslegs stuðnings frá Tónlistarmiðstöð Austurlands og Menningarstofu Fjarðabyggðar, en þær stofnanir veittu einnig ómetanlega aðstoð við framkvæmd tónleikanna með fjölbreyttum hætti og erum við afar þakklát fyrir gott samstarf. Við viljum líka þakka Guðnýju Jónsdóttur, kirkjuverði, fyrir að sjá til þess að hljómsveitinni leið einstaklega vel í Eskifjarðarkirkju og öllum þeim sem buðu hljómsveitarmeðlimum gistingu. Síðast en ekki síst þökkum við áheyrendum kærlega fyrir að koma og vonumst til að sjá sem flesta aftur!