Sinfóníuhljómsveit Austurlands hélt tónleikana Rót í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði þann 27. febrúar, þar sem hún frumflutti verkið Rót eftir Þórunni Grétu Sigurðardóttur. Hljómsveitin pantaði verkið hjá henni árið 2019, en frumflutningurinn dróst nokkuð vegna faraldurs þannig að það var einkar ánægjulegt að fá loksins að spila verkið. Á tónleikunum lék Ólöf Sigursveinsdóttir sellókonsert Roberts Schumann og hljómsveitin flutti „ófullgerðu“ sinfóníuna eftir Franz Schubert. Stjórnandi hljómsveitarinnar á tónleikunum var Gunnsteinn Ólafsson og konsertmeistari var Zsuzsanna Bitay. Tónleikarnir voru styrktir af Uppbyggingarsjóði Austurlands, Tónlistarsjóði, Múlaþingi, Fjarðabyggð, Síldarvinnslunni, Menningarsjóði FÍH, Alcoa, Menningarstofu Fjarðabyggðar og Tónlistarmiðstöð Austurlands og þökkum við kærlega fyrir stuðninginn.