TÓNSKÖPUN
Samstarf við tónskáld
Sinfóníuhljómsveit Austurlands á í samstarfi við tónskáld um frumflutning á nýjum verkum sem með einhverju móti tengjast Austurlandi. Ýmist eru það tónverk eftir austfirsk tónskáld eða verk sem snerta á austfirskum málefnum af einhverju tagi, svo sem sögu, landafræði eða menningu fjórðungsins. Með þessu stuðlar hljómsveitin að aukinni tónsköpun á og í tengslum við Austurland og eiga sinn þátt í að auðga tónbókmenntir íslensku þjóðarinnar með nýjum og glæsilegum tónverkum.
Fyrsta samstarfsverkefni hljómsveitarinnar af þessu tagi er við Þórunni Grétu Sigurðardóttur, en hljómsveitin pantaði nýtt tónverk frá henni árið 2019. Þórunn Gréta er frá Fellabæ í Múlaþingi og var nemandi í Tónlistarskólanum á Egilsstöðum og Tónlistarskólanum í Fellabæ. Hún lauk síðar diplomaprófi í tónsmíðum frá Tónlistarskólanum í Reykjavík, B.A. gráðu frá Listaháskóla Íslands og M.Mus. gráðu frá Hochschule für Musik und Theater í Hamborg. Hún hefur verið formaður Tónskáldafélags Íslands frá árinu 2015.